miðvikudagur, október 04, 2006

Úti að aka

Ég, Birta komst heil úr höfuðborginni þrátt fyrir að móðir mín kær keyrði alla leið að Holtgörðum, en venjulega hættir hún sér ekki á háskabrautir Reykjarvíkur, henni langaði endilega að prófa sem er ekkert besta hugmynd sem ég hef heyrt. Svo sem allt í lagi að hún æfi sig í að keyra bara ekki þegar ég sit í bílnum og er að reyna að segja henni að hún hafi alveg 2-3 metra til afnota hægra megin við bílinn, en nei nei
,,það er allt í lagi Birta mín" segir hún,
,,ég notar svo sjaldan stefnuljós þannig að það er best að vera á báðum akreinunum".
,,JÁ ER ÞAÐ!!" segi ég skelfingu lostin þegar enn einn trukkurinn mætir okkur með hvínandi flautuna alveg brjálaður. Eftir að hafa komið við í ríkinu og IKEA í Holtagörðum þá við ég vinsamlegast um að fá að aka bifreiðinni, því mig langi svo að prófa (ekki deyja). Það líður ekki hálf mínúta þangað til hún er farin að segja mér hvað Íslendingar séu algerlega snauðir allri umferðarmenningu og blótar þessum ,,dumme kerlingum" sem ætti víst ekki að hleypa út fyrir vöktuð svæði.... ég álít bestan þann kost að segja sem minnst á þessari stundu.
Ekki það að ég sé einhver frábær ökumaður, bara... ég veit til hvers hvítu strikin eru.

Lifið heil, Birta úti að aka

(Hæglætisveður, 5 gráður)