föstudagur, október 06, 2006

Hávísindaleg tilraun í fjósinu

Í gær fór ég út í fjós þar sem mér var fyrirlagt að gera þar hávísindalega tilraun á atferli kvíga. Ég reyndi að finna mér réttan útbúnað en þar sem lítið fólk virðist ekki eiga að eiga nokkurt erindi í fjósið, þá endaði ég í galla nr. 54 og stígvélum nr.43. Þegar ég var kominn í búninginn fannst mér ég vera fær í flestan sjó (enda hefði ég getað tjaldað gallanum og farið í rafting í stígvélunum) og þrammaði inn í fjós. Ég valdi mér ,,algerlega tilviljanakennt" kvígu sem var nr 1004 og hóf tilraunina sem fólst í því að skrá á 5 mín. fresti hvað kvígan væri að gera og hversu oft hún framkvæmdi hvert atferli. Nema það að 1004 var bara þræl þroskaheft. Hún glápti á mig gersamlega stjörf fyrstu 5 mínúturnar (ég held reyndar að það hafi verið outfittið sem heillaði). Þegar hún var búin að glápa á mig fór hún að framkvæma afar afbrigðilegt atferli (stereotypes) eða svokallaðar ,,tungurúllur". Hún virtist vera búin að ná gríðarlegri leikni við þetta atferli, enda sýndi hún það stanslaust næstu 25 mín. þar á eftir og sleikti innréttingarnar inná milli. Hún gerði barasta ekkert annað, átti enga vini, engin samskipti við neinar aðrar kvígur og hreyfði sig ekkert, bara stóð eins og fáviti út í horni og velti tungunni uppí sér af mikilli innlifun. Sem betur fer var gefið þegar hálftími var liðinn af þessarri hávísindalegu tilraun minni svo ég gat stungið af og logið upp restinni af tilrauninni.
Það er einmitt á svona stundum sem maður fattar hvað háskólanám er mikilvægt og gott veganesti út í lífið
Ég mæli samt sem áður með því að þið gerið ykkur ferð út í fjós og skoðið 1004, hún er alveg rosalegur grínari!

Helga María
í hávísindalegum hugleiðingum.


( austan 5, hiti 3,5 gráður á celsíuskvaða )