miðvikudagur, október 25, 2006

Góðar gjafir

Ástkærir foreldrar mínir eru nýkomin heim úr hálfsmánaðar dvöl frá henni Ameríku. Þannig er nefninlega mál með vexti að systir hennar ömmu býr þarna vesturfrá og foreldrar mínir sáu hjá sér mikla þörf að heilsa uppá þá gömlu (svona meðan hún er vel heilsuhraust). Þó skal tekið fram að systirin var ekki í ,,ástandinu" eins og svo mörg ungmeyin á stríðsárunum, heldur flutti hún bara til útlanda með manninum sínum honum Jóni.
Nema það að mömmu minni þykir alveg hreint ægilega gaman að versla í útlönum, enda er hún svo sannfærð um að hvergi sé hægt að gera betri kaup en ákkúrat í því landi sem hún er stödd í þá og þegar og gjafirnar eru margvíslegar eftir því. Hvað á ég sem dæmi að gera við handtöskur, pils, naglasnyrtisett, perlufestar og þar fram eftir götunum? Þið sem þekkið til mín vitið að það er nákvæmlega ekkert af þessu notað og reynt að fela þetta við hvert tækifæri, þannig ég held að sparnaður móður minnar fari að mestu leyti fyrir ofan garð og neðan.
Talandi um mömmu mína, þá held ég að það fyrirfinnist ekki kona af hennar kynslóð sem býr yfir lélegri enskukunnáttu. Og notar hana óspart. Ég bað hana um að kaupa fyrir mig eina teiknimynd (Over the hedge, já verið bara abbó). Mamma mín fór búð úr búð að leita að myndinni en hvergi fannst ræman. En svo kom að því, síðasta daginn sem þau voru í Ameríkunni, þá er frúin að fletta einhverjum auglýsingableðli og hvað haldiði, myndin fræga á spottprís og tuskudýr sem fylgir með. Nema það að frúin lætur nú ekki segja sér þetta tvisvar, rífur auglýsinguna úr blaðinu og straujar af stað með pabba í eftirdragi og auglýsinguna í veskinu. Verslunin góða opnaði ekki fyrr en 12 á hádegi að staðartíma, þannig mamma hékk á húninum þangað til að stelpuræfill opnaði fyrir henni. Þá hefur frúin upp raust sína og otar auglýsingunni að stelpunni: Í vúld læk tú hef ðis piktjur and ði animal viðð itt. Stelpan skilur að sjálfsögðu ekkert hvað er um að vera en mamma gefst ekki upp og patar, potar og útskýrir af öllum lífsins sálarkrafti hvað hana vanti. Að lokum fékk mamma myndina í hendurnar var á leið út úr búðinni, þá mundi hún eftir helvítis tuskudýrinu og snéri við í dyrunum og hélt aðra ræðu yfir stelpunni og kom út skömmu síðar, sigri hrósandi með tuskudýrið. Mamma mín er æði, hvað er annað hægt að segja.
Ég er líka nokkuð viss um að enginn annar en mamma mín hefur heldur keypt brjóstahaldara á allan kvenpeninginn í fjölskyldunni á dántán prís.

Kveðja Helga María, glöð með gjöfina góðu frá Ameríku
NA-átt, 6,6 m/sek og 1,3° á selsíuskvarða