Góðan afmælisdag kæru lesendur.
Jæja loks rann upp þessi langþráði dagur sem ég er búin að bíða eftir síðan á kvöldi 17.janúar í fyrra. Í tilefni dagsins ætla ég að vera með kjötsúpuveislu og er undirbúningur hennar kominn á fullt, Birta situr með sína litlu sjón á hægra auga og stóra leppinn fyrir því vinstra og er að skera rófur og gulrætur með STÓRA hnífnum, gott, gott (hver þarf að hafa 10 putta hvort eð er).
Ég er búin að fá þrjá pakka og fékk ég þá í gærkvöldi í æfingarafmælinu sem var í risinu í 12. Gullberastaðafjölskyldan gaf mér borð sem má bara geyma á bjór, gjöf sem ég geri ráð fyrir að verði mikið notuð. Unnsteinn gaf mér klósettleiðbeiningar sem eru stolnar af klósetti í Danmörku sem voru mjög skemmtilegar og fróðlegar. Óðinn gaf mér náttföt til að nota í Hreðjarsferðinni og samanstóðu þau af u.þ.b. meter af gegnsæjum borða, já Óðinn kann að gleðja.
Það eru svo skemmtilegir tímar framundan að ég á bara bágt með mig, ég á afmæli í dag, á föstudaginn förum við á þorrablót í Gnúpverjahrepp og um helgina förum við svo í ferð í Skaftártunguna með hrútavinafélaginu Hreðjari. Ég er alveg að farast úr spenningi....bjór bjór bjór. Svona reynir á að vera í háskóla úfff.
En þetta er orðið gott, ég ætla að fara að taka á móti afmæliskveðjum og stóru pökkunum sem bíða mín.
Þið munið svo að Dolly Parton á afmæli 19.janúar. Þeir sem vilja senda afmæliskveðjur geta örugglega farið á dollyworld.com og komið á framfæri afmæliskveðjum. Erfitt að þurfa að deila svona afmælisvikunni, en það slær aðeins á sársaukann að eyða henni með stórstjörnu á borð við Dolly.
Ég mun taka við afmæliskveðjum í gegnum síma, emil og á þessari síðu. En gjafirnar verðið þið að koma með sjálf og munið að ég met vini mína eftir stærð og verðmæti gjafa :)
Kveðja Helga afmælisbarn
-7°á celsíuskvarða, stillt og fínasta afmælisveður.