fimmtudagur, október 26, 2006

Íslenskur fréttaflutningur

Fá gefins vél
Hólmvíkingar fá gefins vél í skólabíl sveitarfélagsins sem notaður hefur verið fyrir akstur úr Djúpinu.

Dísilvél bílsins er ónýt eftir aðeins 135 þúsund kílómetra akstur sem þykir afspyrnu léleg ending fyrir þess konar vél, eins og segir í fundargerð sveitarstjórnarinnar.

„En sem betur fer ætlar umboð Ingvars Helgasonar að láta okkur fá nýja, strípaða vél okkur að kostnaðarlausu og benti auk þess á verkstæði sem var tilbúið að setja nýju vélina í fyrir 120 þúsund krónur," segir í fundargerðinni.

Um er að ræða mikið breyttan bíl.

Stolið af fréttavef vísis

Kveðja Helga María
SSA-átt, 4,5 á celsíuskvarða

miðvikudagur, október 25, 2006

Góðar gjafir

Ástkærir foreldrar mínir eru nýkomin heim úr hálfsmánaðar dvöl frá henni Ameríku. Þannig er nefninlega mál með vexti að systir hennar ömmu býr þarna vesturfrá og foreldrar mínir sáu hjá sér mikla þörf að heilsa uppá þá gömlu (svona meðan hún er vel heilsuhraust). Þó skal tekið fram að systirin var ekki í ,,ástandinu" eins og svo mörg ungmeyin á stríðsárunum, heldur flutti hún bara til útlanda með manninum sínum honum Jóni.
Nema það að mömmu minni þykir alveg hreint ægilega gaman að versla í útlönum, enda er hún svo sannfærð um að hvergi sé hægt að gera betri kaup en ákkúrat í því landi sem hún er stödd í þá og þegar og gjafirnar eru margvíslegar eftir því. Hvað á ég sem dæmi að gera við handtöskur, pils, naglasnyrtisett, perlufestar og þar fram eftir götunum? Þið sem þekkið til mín vitið að það er nákvæmlega ekkert af þessu notað og reynt að fela þetta við hvert tækifæri, þannig ég held að sparnaður móður minnar fari að mestu leyti fyrir ofan garð og neðan.
Talandi um mömmu mína, þá held ég að það fyrirfinnist ekki kona af hennar kynslóð sem býr yfir lélegri enskukunnáttu. Og notar hana óspart. Ég bað hana um að kaupa fyrir mig eina teiknimynd (Over the hedge, já verið bara abbó). Mamma mín fór búð úr búð að leita að myndinni en hvergi fannst ræman. En svo kom að því, síðasta daginn sem þau voru í Ameríkunni, þá er frúin að fletta einhverjum auglýsingableðli og hvað haldiði, myndin fræga á spottprís og tuskudýr sem fylgir með. Nema það að frúin lætur nú ekki segja sér þetta tvisvar, rífur auglýsinguna úr blaðinu og straujar af stað með pabba í eftirdragi og auglýsinguna í veskinu. Verslunin góða opnaði ekki fyrr en 12 á hádegi að staðartíma, þannig mamma hékk á húninum þangað til að stelpuræfill opnaði fyrir henni. Þá hefur frúin upp raust sína og otar auglýsingunni að stelpunni: Í vúld læk tú hef ðis piktjur and ði animal viðð itt. Stelpan skilur að sjálfsögðu ekkert hvað er um að vera en mamma gefst ekki upp og patar, potar og útskýrir af öllum lífsins sálarkrafti hvað hana vanti. Að lokum fékk mamma myndina í hendurnar var á leið út úr búðinni, þá mundi hún eftir helvítis tuskudýrinu og snéri við í dyrunum og hélt aðra ræðu yfir stelpunni og kom út skömmu síðar, sigri hrósandi með tuskudýrið. Mamma mín er æði, hvað er annað hægt að segja.
Ég er líka nokkuð viss um að enginn annar en mamma mín hefur heldur keypt brjóstahaldara á allan kvenpeninginn í fjölskyldunni á dántán prís.

Kveðja Helga María, glöð með gjöfina góðu frá Ameríku
NA-átt, 6,6 m/sek og 1,3° á selsíuskvarða

fimmtudagur, október 19, 2006

Rosa full

Dagur 3 frá próflokum, ég er aveleg djöfull góð í löppini og hinu , takk fyrir það.
over and out
Helga, Egill og Bita

Blind blekaðar

Gott kvöld góðir hálsar...

Nú er búið að setja á flöskur... og þær voru nokkuð margar eða um 40 stykki plús ein tveggja lítra!! Nokkuð gott
Vorum ánægðar með dagverkið og eftir kannski rúmlega viku eða aðeins meira þá verður góður gleðskapur, kannski jafnvel líka opnun, opinber, á heimasíðuna.

En sitjum nú hér að drykkju, og nokkur eru komin fram úr öðrum á því sviði, en gaman verður að vita hvernig kvöldið endar. Það er bara greinilegt hverjir eru búnir með próf og hverjir ekki....

En þangað til síðar
Kveðja Birta og Helga

(Logn, nánast heiðskýrt, -1 celsíus)

sunnudagur, október 15, 2006

Svindl, svindl, svindl

Af hverju getur Birta alltaf fengið að gera allt sem hana langar til en ég er hér heima kvöld eftir kvöld að læra.
Ég er er nefninlega að fara í próf á morgun en Birta ekki, þannig hún er búin að fá að vera full alla helgina, vera með ólæti og almennt fylleríisröfl á meðan ég sit hér með tárin í augunum, lærdómsbækurnar í höndunum og að drepast því ég er svo djöfulli abbó.
Svo finnst mér endalaust verið að nudda mér uppúr þessu. Birta, Helgi Haukur og Einar Kári að koma hingað til að segja mér allt þetta ótrúlega magnaða sem gerst hefur undanfarnar nætur, eins og þegar Stonemask dó og var málaður, svo það nýjasta, hvað það gerðist margt skemmtilegt á Geirmundi. Ég hefði ekki viljað missa af því þegar Birta rauk uppá svið til að fá eiginhandaráritun frá honum ,,Geira sínum". En ég missti af því eins og öllu öðru skemmtilegu þessa dagana. Ég er að kafna ég er svo abbó.

Kveðja Helga, svo abbó
rigning, hiti 6,6°

fimmtudagur, október 12, 2006

Dægrastytting

Sælt veri fólkið

Fyrst að allt annað en lærdómur virðist vera lífsnauðsynlegt að framkvæma ætla ég að segja ykkur nokkur stórmerkileg og bráðnauðsynleg orð.
Hvað er betra en að segja ykkur eitthvað frá æsku minni, endalaus uppspretta skemmtunar.
Ég og hjól eigum ekki svo vel saman, ég held að ég sé með bara einhvern vatnsleka í eyranu sem veldur því að mitt jafnvægislyn er ekki til staðar. Eða kannski er það vegna þess að ég sá ekkert mína fyrstu 18 mánuði og hafði því ekki möguleika á því að þróa jafnvægið á við hin heilbrigðu börnin.
Hvað sem það er þá veldur það því að ég er frekar völt svona og samhæfing hugar og handar er ekki alltaf sem skyldi.
Ég man að þegar ég var aðeins yngri og ekki mikið minni þá fengum við systur hjól, það var mikill gleðidagur og spenningurinn í hámarki. Ég var náttúrulega æst í það að prófa fákinn, en málið var það að foreldrar mínir ákváðu að vera forsjálir og kaupa lítið eitt stærra hjól en ég þurfti á þeim tíma. Síðan gæti ég stækkað upp það.... já... stækkað (ég er nú reyndar alltaf að bíða eftir þeim vaxtarkipp).
Hvað með það þá rauk ég á hjólið og þeyttist af stað.
Fyrir þá sem þekkja til heima hjá mér þá er hlaðið í hring og síðan get ég beygt fyrir horn á slétt plan áður en afleggjarinn tekur við, sem er svolítið brattur.
Ég byrjaði að hjóla og hjóla og hjóla, allt gekk vel ég náði hringnum á hlaðinu og var komin á talsverða ferð þegar ég var að undirbúa mig undir það að beygja fyrir hornið... en obbobb... ég náði ekki alveg að stjórna stýrinu og NÁÐI ekki un bremsunar (því að mamma og pabbi höfðu keyrt hjól sem ég myndi vaxa upp í!!) og ég þaut niður afleggjarann.
Ég gerði það sem öllum 12 ára stelpum dettur í hug, ég garga.... læt pabba fá næstum því hjartaáfall og hann hleypur á eftir mér.
Ég reyndi að beygja hjólinu en allt kom fyrir ekki. ég endaði á túnhliðinu sem er beint á móti afleggjaranum. Klessti á túnhliðið, kippti því af, flaug af hjólinu beint í einhvert drullusvað, nokkrum metrum frá, með andlitið fyrst og á eftir mér kom fákurinn góði, með hliðdrusluna flækta í sér, beint á mig.
Í þessu kom faðir minn að athuga hvort að ég væri nú heil, sem ég var svo sem fyrir utan eina framtönn og brotið stolt.
Þetta var dagurinn sem ég ákvað að hjóla ekki mikið meira...
tour de france... þetta er bara hópur af spennufíklum

Birta á fljúgandi ferð

(hálfskýjað, 14 stig, austan 4, ágætisveður)

þriðjudagur, október 10, 2006

Gleðidagur

Nú gerðist það gott fólk, dagurinn sem allir biðu eftir....
Við lögðum í bjór, loksins.
Við gerðum allt rétt, töluðum við gerið svo að það myndi vaxa og dafna, leika sér við sykurinn á kyngimagnaðan hátt og þessi tryllti dans gers og sykurs í leginum mun geta af sér ljúfan, svalandi, perlandi mjöð.
Við förum með Mæju sem okkar andlega stuðningsmann og leiðbeinandi á meðan við hræðum saman efnið, það var gaman.
Þetta er lífið, þetta er stundin sem við höfum beðið eftir, nú er ekkert eftir nema að bíða rólega, þó með tilhlökkun eftir að við megum fara að tappa á og njóta innan skamms... Bíðið bara, bíðið bara

Kveðja Birta og Helga

(suðvestan 5, súld, 6 gráður á celsíuskvarða)

mánudagur, október 09, 2006

Afrek dagsins

Ég náði að gera eiginlega allt annað en að læra í dag, ég fór eftir að ég vaknaði á hrútasýningu Lunddælinga og Andkílinga kl. eitt og fór það vel fram. Allir voru óþægilega stilltir og kurteisir nema við mæðgur á Gullberastöðum, við náðum svolítið að halda uppi óreiðu og skrílslátum og gerðum við óspart grín af Skagfirðingum og þeim sem voru að dæma sem töluðu ekki allt of hátt.

Eftir að við höfðum verið á þessari sýningu, þar sem Hestmenn og Lunddælingar báru af öðrum keppendum, fór ég og reyndi að næra mig eitthvað áður en embættisstörf mín hófust. Þau fólu það í sér fara á þann fróma stað Kópareyki í Reykholtsdal og velja hrút til kynbóta á Syðstu-Fossum fyrir hönd Hrútavinafélagsins Hreðjars. Tókst það ágætlega og festum við kaup á Lundasyni sem lofaði góðu og var vænlegur til afreka.

Mikið meir gerðist ekki í dag fyrir utan almenna drykkju og ólæti.
Kveðja Birta ótrúlega ómissandi

(Dropar í lofti, norðaustan 3, hita 8 gráður á selsíuskvarða).

föstudagur, október 06, 2006

Hávísindaleg tilraun í fjósinu

Í gær fór ég út í fjós þar sem mér var fyrirlagt að gera þar hávísindalega tilraun á atferli kvíga. Ég reyndi að finna mér réttan útbúnað en þar sem lítið fólk virðist ekki eiga að eiga nokkurt erindi í fjósið, þá endaði ég í galla nr. 54 og stígvélum nr.43. Þegar ég var kominn í búninginn fannst mér ég vera fær í flestan sjó (enda hefði ég getað tjaldað gallanum og farið í rafting í stígvélunum) og þrammaði inn í fjós. Ég valdi mér ,,algerlega tilviljanakennt" kvígu sem var nr 1004 og hóf tilraunina sem fólst í því að skrá á 5 mín. fresti hvað kvígan væri að gera og hversu oft hún framkvæmdi hvert atferli. Nema það að 1004 var bara þræl þroskaheft. Hún glápti á mig gersamlega stjörf fyrstu 5 mínúturnar (ég held reyndar að það hafi verið outfittið sem heillaði). Þegar hún var búin að glápa á mig fór hún að framkvæma afar afbrigðilegt atferli (stereotypes) eða svokallaðar ,,tungurúllur". Hún virtist vera búin að ná gríðarlegri leikni við þetta atferli, enda sýndi hún það stanslaust næstu 25 mín. þar á eftir og sleikti innréttingarnar inná milli. Hún gerði barasta ekkert annað, átti enga vini, engin samskipti við neinar aðrar kvígur og hreyfði sig ekkert, bara stóð eins og fáviti út í horni og velti tungunni uppí sér af mikilli innlifun. Sem betur fer var gefið þegar hálftími var liðinn af þessarri hávísindalegu tilraun minni svo ég gat stungið af og logið upp restinni af tilrauninni.
Það er einmitt á svona stundum sem maður fattar hvað háskólanám er mikilvægt og gott veganesti út í lífið
Ég mæli samt sem áður með því að þið gerið ykkur ferð út í fjós og skoðið 1004, hún er alveg rosalegur grínari!

Helga María
í hávísindalegum hugleiðingum.


( austan 5, hiti 3,5 gráður á celsíuskvaða )

fimmtudagur, október 05, 2006

Flestir geta fríkkað.

Ég hef ekkert alltaf verið þurrkuð með fegurðarklútnum, eða verið í heppnispeysunni (reyndar er ég í henni ennþá held ég). Þetta er svolítið erfitt að vera svona eins og ég er í dag því ég veit hvernig það er að vera eins og þið hin.
Reyndar var þetta ekki mér að kenna framan af, ég var bara það óheppin að fæðast það góða ár 1985, þá var móðins að hafa gleraugu á stærð við 42´sjónvarp. Þau voru í raun það stór að jafnvægispunkturinn í mér raskaðist, sem var svolítið erfitt þar sem ég er og var ekkert hávaxin.
Stundum held ég samt að foreldrar mínir hafi notað gleraugun sem þau völdu mér sem refsitækni, og viti menn, það tókst.
Síðar (þegar ég kann það) ætla ég að láta myndir af mér og gleraugna safni mínu inn á þessa síðu og það verður rukkað inn.

Ein af mínum uppáhaldsmyndum er fermingarmyndin mín, en þá bara ég af...
Svört þykk gleraugu (sem reyndar er ekki hægt að kenna öðrum um en mér)
dragt (að því ég var að reyna vera öðruvísi, sem var ekki gott því mín líkamlega ásjóna sá alveg um það)
og síðast en ekki síst þá skartaði ég þessum forlátu teinum, bæði uppi og niðri.

Þannig að gott fólk og Helgi Haukur, sumum er bjargandi, haldið bara fast í trúnna allir fá sinn tíma til þess að blómstra, sjáið þið bara mig.

Birta, verðug fyrirmynd

(skýjað, hægt veður, 6 gráður)

miðvikudagur, október 04, 2006

Úti að aka

Ég, Birta komst heil úr höfuðborginni þrátt fyrir að móðir mín kær keyrði alla leið að Holtgörðum, en venjulega hættir hún sér ekki á háskabrautir Reykjarvíkur, henni langaði endilega að prófa sem er ekkert besta hugmynd sem ég hef heyrt. Svo sem allt í lagi að hún æfi sig í að keyra bara ekki þegar ég sit í bílnum og er að reyna að segja henni að hún hafi alveg 2-3 metra til afnota hægra megin við bílinn, en nei nei
,,það er allt í lagi Birta mín" segir hún,
,,ég notar svo sjaldan stefnuljós þannig að það er best að vera á báðum akreinunum".
,,JÁ ER ÞAÐ!!" segi ég skelfingu lostin þegar enn einn trukkurinn mætir okkur með hvínandi flautuna alveg brjálaður. Eftir að hafa komið við í ríkinu og IKEA í Holtagörðum þá við ég vinsamlegast um að fá að aka bifreiðinni, því mig langi svo að prófa (ekki deyja). Það líður ekki hálf mínúta þangað til hún er farin að segja mér hvað Íslendingar séu algerlega snauðir allri umferðarmenningu og blótar þessum ,,dumme kerlingum" sem ætti víst ekki að hleypa út fyrir vöktuð svæði.... ég álít bestan þann kost að segja sem minnst á þessari stundu.
Ekki það að ég sé einhver frábær ökumaður, bara... ég veit til hvers hvítu strikin eru.

Lifið heil, Birta úti að aka

(Hæglætisveður, 5 gráður)

þriðjudagur, október 03, 2006

bloggedibloggbloggblogg

Nú eruð þið loksins komin með samastað á netinu, þegar ykkur leiðist, eruð að vafra, eigið að vera að læra, halda partý eða langar einfaldlega í kjarngóða skemmtun og fróðleik.

Við, Helga María og Birta erum byrjaðar að blogga, hverjum datt það í hug (og já, þið sem voruð að veltast um í vafa þá kunnum við á tölvur).

Næsta skref er að finna út hvernig á að gera svona alls konar fítusa eins og bakgrunn og annað smálegt