sunnudagur, apríl 22, 2007

Gríðarleg stemmning

Sælt veri fólkið
Birta litla fór með fríðu föruneyti í Skagafjörðinn um helgina á Tekið til kostanna.
Ég gat ekki farið með enda er ég á síðustu metrunum í þessu lokaverkefni og jafnframt á síðustu metrunum í þolinmæði og geðheilsu. Þetta er nú ljóta vitleysan og bjáninn ég sem er farin að reyta hár mitt yfir 5 eininga lokaverkefni en er jafnframt búin að fá MS lokaverkefni þar sem er lokaverkefnið er 15 einingar. Það er lesendur góðir ÞRISVAR sinnum meira. Þá held ég að mennirnir í hvítu sloppunum verði búinir að ná í mig og bera mig út froðufellandi í spennitreyju áður en því helvíti lýkur.
....gott þetta Helga.

Stuðkveðjur
Helga María, skjálfhent af kaffi- og tóbaksneyslu
SSA, 8,5°á celsius og prýðisveður

mánudagur, apríl 16, 2007

Sumarvinna... hvað skal gera??

sælt veri fólkið

Nú er ég orðin töluvert spennt fyrir sumrinu og langar mest til þess að drífa þessi próf frá svo maður geti farið að gera eitthvað af viti, eins og vinna. Reyndar er það eitthvað á reiki hvað ég ætla mér að gera en það er eitthvað í boði.

Eftirfarandi er í boði...

Vinna hjá Hilmari
+ skemmtileg vinna og fjölbreytt og góð laun
- er í höfuðborginni, auka húsaleiga og almennt meiri neysla
Vinna hjá Pétri smið
+ er á Hvanneyri
- hann er ekki búinn að svara mér hvort hann þarfnist starfskrafta mína
Vinna við að elda ofan í vegakalla
+ vel borgað og eyði engu
- er á fjöllum með 30 köllum með annan hvern sunnudag frían

Nú er úr vöndu að ráða og er ég í talsverðri sálarangist þess vegna, leggst undir feld og kem með lausn allra mína mála undan honum.. vantar bara að vita hvar maður nálgast þess lags feld.

Birta ljósvetningagoði
(NA 5 m/s, 3°C. hálfskýjað)

mánudagur, apríl 02, 2007

Brúðkaup og fleira spennandi

Sælir lesendur góðir
Margt hefur á daga mína drifið síðan skrifað var á þessa síðu síðast. Á fimmtudag kynntum við lokaverkefnin okkar og það var alveg með eindæmum leiðinlegt enda er ég ekki mikið fyrir að sitja kyrr og hlusta lengi í einu og það sem verra er þá þurfti ég að tala og leyfa öðrum að hlusta og í því er ég sérlega léleg. Það var eiginlega verra að tala sjálf en hlusta, varð bara rauð í framan stamandi eins og fáviti innan um allt þetta sprenglærða fólk sem kom að hlusta á fróðleikinn sem rann uppúr okkur útskriftarnemum. Undarlegt, eins og ég hef nú annars gaman að því að tala og geri mikið að því.
Eftir þá niðurlægingu ákváðum við Svana að lyfta okkur aðeins upp með því að fara með hópi fólks að skafa skít af grindum í fjárhúsunum hjá honum Árna á Skarði, því hann er slæmur í baki og finnst gaman að fá fávita í heimsókn. Þar sem sóp hafði ekki verið brugðið á grindurnar í allan vetur var þetta nokkur mokstur en einnig þónokkurt gaman. Árni veitti vel af bjór og víni og eldaði meir að segja ofan í okkur. Ótrúlega klár hann Árni. Þegar mokstri var lokið ákváðum við á fara í sund í Brautartngu eins og svo oft áður. Eftir sundferð var svo haldið heim á leið á túttujeppanum hans Bjarna og haldið á barinn.
Á laugardaginn fórum við svo í brúðkaup Benna og Höllu. Það var mjög merkileg athöfn enda pússaði sjálfur alsherjagoði hjúin saman. Alsherjagoði var þó ekki jafn tilkomumikil sjón eins og ég bjóst við, skegglaus og tuldrandi ofan í bringuna á sér, svekkelesi. Svo fór hann meir að segja illa með vínið, sullaði þessu meir og minna niður. Síðan var veisla á Indriðastöðum, ball og allt saman og heilmikil gleði. Þegar við fórum heim fékk ég með mér eina 8 lítra af bollu úr brúðkaupinu til að viðhalda gleðskapnum og var það heilmikil sárabót fyrir að þurfa að kúldrast í skottinu á rollunni heim og það liggjandi ofan á sementspoka.
Jæja þetta er orðið gott....Bið ykkur vel að lifa

Helga María í syngjandi sveiflu
Blíðviðri, NA gola og 7,7°á selsíuskvarða