fimmtudagur, desember 28, 2006

hó hó hó

Sælt veri fólkið og gleðileg jól

Það sem af er jólum er búið að ganga prýðilega, allir saddir og sælir nema ég held að einhverjir hafi misskilið eindregna ósk mína um margar, stórar og dýrar jólagjafir. En það sleppur þar sem það er ekki langt í afmælið mitt... allir eru að safna er það ekki??

Annars var nóttin slæm, uppköst og læti sem er ekkert svo gaman, og almenn slappleiki í dag sem er heldur ekki gaman. Málið er bara að hressa sig við fyrir áramótin því ekki vill maður eyða þeim með postulíninu sem ég er þó orðin skuggalega náin, minn traustasti vinur í dag. Takk gustafsberg, þú ert æði!!

Birta ælir til þess að verða mjó
(Austan 7 m/sek hiti 8 gráður, leiðindar veður)

laugardagur, desember 23, 2006

Loksins er ég...

Loksins er ég....
..Búin að kaupa allar jólagjafir (ég vandaði mig lítið)
..komin hein úr Reykjavíkinni, var að vinna
..búin að fá mér 3 bjóra og ætla ekki að hætta þar því ég á þá skilið
..leita að borði fyrir mömmu í IKEA sem ég vissi ekki hvernig leit út, en síðan var það ekki til í réttum lit
..búin að ákveða hvað ég ætla að gera um áramótin: almenn ofurölvun
..búin að pakka inn gjöfunum
..búin með 4 bjóra og er ekki enn hætt
..búin að plana DK ferð í mars til að hitta Evu Lind og Ragga
..búin að koma mér í jólaskap
..búin að blogga í dag

Til hamingju með jólin
Birta afreksmanneskja
(ANA 3 m/sek, 4 gráður, ekki jólaveður)

laugardagur, desember 16, 2006

Hugsa minn gang..

Góðan dag (ef góðan skyldi kalla)

ég er komin að tímamótum í lífi mínu, ég held að ég sé að verða/orðin nörd.
Það er eitthvað sem segir mér að ég sé aðeins að missa kúlið þar sem ég sit EIN í tölvustofu skólans á laugardagsMORGNI og er að læra í dýrafræði hryggleysingja... (já gott fólk það eru ormar og fleira ógeð).
Það leiðinlega er að til þess að læra í dag hafnaði ég skemmtun í gær...

Mér finnst ég vera óhrein...

Birta farin yfir til óvinarins
(Austan 2 m/sek, -10 gráður)

fimmtudagur, desember 14, 2006

17 kaplar

Sælt veri fólkið
Nú er eitthvað liðið á prófin og ennþá er ég ekki búin að detta í lædómsgírinn eins og ég hélt að ég myndi gera. Ég er samt búin að læra aðeins betur textana hennar Dolly Rebeccu Parton því að sá diskur er aðeins búinn að fá að rúlla og hann er, gott fólk, algör snilld!!! Nýja uppáhaldslagið mitt er núna ,,Apple Jack" eða ,,Epla Jón" eins og það myndi útleggjast á ylhýra.

Jónína hringdi í mig í dag, hún var í Prag, í svakalegri stórri H&M búð. Hún var alveg viss um það að Íslendingar væri með apa í því að velja vörur sem kæmu til Íslands því þetta var víst svakalega fínt, annar en horbjóðurinn sem er hér í boði. Jafnframt var hún viss um að Tékkar væru litblindir þar sem þeir voru víst ekkert að nýta sér þessu fínu búðir sem hún var búin að finna.
Já þeir eru kjánar Tékkarnir, sjáum bara júróvisjón lögin sem þeir senda. Þarf að segja meir?

Jæja er ekki best að fara leggja svona 17 kapla til þess að þurfa ekki að læra...

Birta Dollyfan #1
(P.S. það er til himneskur staður í BNA... Dollywood)

(2 m/sek, -8 gráður, kalt en stillt, norðurljós)

laugardagur, desember 09, 2006

Stutt í próf

Sælt veri fólkið

Við Helga og Einar Kári erum ekkert búin að gera í dag, og vera í sófanum og stólunum til skiptis annað hvort sitjandi, liggjandi eða hálfliggjandi, þetta er ekki falleg sjón. það er byrjað að dimma aftur og við erum nú ekki búin að afreka mikið, ekki neitt.

Helga situr með glósurnar sínar í fanginu til þess að friða samviskuna en ég veit betur og er með ekkert í höndunum, nenni ekki að blekkja mig á því að halda að ég læri eitthvað í dag.

Helga, Einar og Bjarni kynntust nýjum manni í gær, sem var sofandi, og Bjarni fékk aðeins að lána símann hans til þess að heyra í systur sinni.... Hún er í Boston, hún sagði allt gott.

Þangað til næst
(austan 7 m/sek, -1 gráða, kalt og ljótt veður)

föstudagur, desember 01, 2006

Já, þá fauk í mig

Einu sinni þegar ég var ung að árum langaði mig ægilega til að fara að æfa fimleika. Þetta vakti ekki mikinn fögnuð heima fyrir enda vissu þau allt um mína lipurð og fögru limaburði, en ég gaf mig ekki, kom þessu í gegn og hóf ferilinn glæsta.
Mér fannst mér ganga rosa vel, amma gaf mér meir að segja fimleikabol og ég æfði stíft fyrir vorsýninguna, sem nálgaðist óðfluga.
Konan sem þjáfaði okkur var ekki á sama máli og hringdi í þrígang heim og bað mömmu um að finna fyrir mig aðra íþrótt þar sem ég væri bæði hættuleg sjálfri mér og hinum krökkunum í fimleikunum. En mamma stoppaði mig ekki, enda fannst mér bara fáránlegt að vera að reyna að hrekja mig úr íþrótt sem ég var svona líka rosalega góð í.
Úr því að ég gafst ekki upp þá tók kerlingin sem þjáfaði okkur sig til og gerði eitt það allra ljótasta sem ég veit til að hafi verið gert 6 ára gömlu barni. Hún fann minn veikasta punkt; vorsýninguna sem ég ætlaði að rúlla upp og toppa á fimleikaferlinum.
Vorsýningin var með eitthvað svona náttúru/álfa/trölla þema og ég var búin að fá hlutverk sem blóm, í rosa flottum búning og allt saman. Nema það að á síðustu stundu breytti þjálfarinn um plan og ég átti að vera TRÖLL, ég sett í svartan ruslapoka, máluð svört í framan og með hárið allt út í loftið. Mér varð svo svakalega misboðið að ég rauk heim af sýningunni, sótbölvandi og brjáluð út í helvítis kerlinguna.
Ég fór aldrei aftur í fimleika....

Kveðja
Helga lipra
SV átt og hæglætisveður